You are here

Skipulagsskrá Hrafnkelssjóðs

"Við undirrituð, Ólafía Guðfinna Jónsdóttir og Einar Þorkelsson, foreldrar Hrafnkels Einarssonar, studiosus politices, sem fæddur var 13. ágúst 1905, lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum 1923 og hlaut að aðaleinkunn 7,48, las hagfræði um tveggja ára skeið við Kielar-háskóla og síðan við háskóla Vínarborgar, en lézt í Alland-heilsuhæli í Austurríki 4. nóvember 1927, gerum svofelda skipun um þær 300 - þrjúhundruð - krónur, sem hann lét eftir sig í reiðufé.

1. Með fé þessu skal stofna sjóð, er heita skal Hrafnkelssjóður, og má aldrei breyta nafni hans. En um hann eru þegar gerð þessi ákvæði:

a. Sjóðurinn skal um aldur og æfi geymdur í Söfnunarsjóði Íslands og má því aldrei raska.

b. Sjóðurinn skal standa óskertur þangað til árið 2005, og skulu allir vextir við hann lagðir til þess tíma, svo og fé það er honum kynni að bætast, fram að því ári, og má ekki frá þessu víkja.

c. Eftir árið 2005, skal, jafnt sem áður, aldrei skerða höfuðstól sjóðsins, heldur auka hann með því fé, sem honum kynni að bætast, og með því leggja árlega minnst fjórðung vaxta þeirra, er hann ber, við höfuðstólinn. Þessu ákvæði um höfuðstólinn má aldrei breyta og fyrirmælum um vextina því aðeins að stjórn sjóðsins telji nauðsyn á, að leggja meira en fjórðung árlegra vaxta við hann.

2. Hlutverk Hrafnkelssjóðs skal vera það, að veita íslenzkum stúdentum styrk, þeim, er þess þurfa, til þess að rækja nám við erlenda háskóla, og skiptir ekki máli, þó að þeir gæti notið samskonar náms við Háskóla Íslands. En þessi eru skilyrði fyrir að njóta styrks úr sjóðnum, auk skilyrða þeirra, er síðar kunna að verða sett.

a. Styrkþegi verður að hafa lokið íslenzku stúdentsprófi og hlotið að minnsta kosti aðra einkunn (haud illaudabilis).

b. Hann skal hafa kynnt sig að námfýsi, drengskap og háttprýði, að dómi kennara sinna og skólasystkina.

c. Hann skal hafa greitt Hrafnkelssjóði minnst 15 - fimmtán - krónur.

d. Beri svo til, að þeir, sem styrks leita úr sjóðnum, séu um flest jafnir að verðleikum, en þó sé annar eða einn, ef umsækjendur eru fleiri en tveir, mest vanbúinn sakir fjárskorts, þá skal hann ganga fyrir hinum um styrkinn að öðru jöfnu.

3. Stjórn Hrafnkelssjóðs skal svo skipuð, að formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands er sjálfkjörinn í hana, og er hann formaður hennar. Þar næst er rektor Menntaskólans í Reykjavík sjálfkjörinn. Þá kjósa kennarar Menntaskólans einn mann úr sínum flokki í stjórnina til 3ja ára í senn. Loks kýs Stúdentafélag Reykjavíkur tvo menn úr sínu liði í stjórnina til jafn langs tíma.

Stjórn sjóðsins skal skipuð þegar er formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefir veitt móttöku skírteini fyrir þeim 300 krónum, sem eru stofnfé sjóðsins og að framan getur.

Ætlunarverk stjórnarinnar er að auka og efla sjóðinn með hverjum þeim hætti, sem verða má og við samandi er, til þess tíma, er veittur yrði styrkur úr honum. En styrkveitingar eru að öllu leyti á valdi stjórnar sjóðsins, svo og önnur gæzla hans, og ber hún öll í sameiningu ábyrgð á honum.

Skylt er stjórn sjóðsins að veita móttöku gjöfum og tillögum til hans, svo og hverju því öðru, er honum má til styrktar verða.

4. Styrkur úr Hrafnkelssjóði skal í fyrsta sinn veittur 13. ágúst árið 2005, og má ekki breyta ákvæði þessu. Síðan skal jafnan miða úthlutun styrks úr sjóðnum við 13. ágúst en eigi aðra daga árs. Styrkveitingar úr sjóðnum mega aldrei nema meiru en sem svarar þrem fjórðungum árlegra vaxta hans (sbr. 1. lið c.).

5. Reikningar Hrafnkelssjóðs skulu ár hvert birtir í Árbók Háskóla Íslands.

6. Á skipulagsskrá þessari skal leita konunglegrar staðfestingar, og hún síðan birt í Árbók Háskóla Íslands og Stúdentablaðinu."

--------
Skipulagsskráin var birt í Stjórnartíðindum fyrir Ísland árið 1930, B-deild og hlaut staðfestingu 5. febrúar það ár.