Gist er í húsum á Hesteyri og í Hlöðuvík en í tjöldum í Hornvík. Farangur er fluttur að hluta, þ.á.m. tjöldin til Hornvíkur, einnig er hægt að senda mat til Hornvíkur.
Dagur 1: Siglt frá Ísafirði að Látrum í Aðalvík og gengið til Hesteyrar (10 km), en farangur fluttur sjóleiðis til Hesteyrar. Gengið er suðaustur yfir melgresisgróna sanda fyrir botni Norður-Aðalvíkur. Stakkadalsós er vaðinn fyrir neðan bæinn Stakkadal og þaðan gengið upp Stakkadalsfjall, um skarð milli Búrfells og Kagrafells og síðan niður til Hesteyrar (um 300 m hækkun). Greinileg gata er alla leið og vegur síðasta spölinn að Hesteyri sem liggur að hluta til meðfram Hesteyraránni. Gist er í Læknisbústaðnum á Hesteyri sem stendur nálægt árósnum.
Kvöldganga verður inn að Stekkeyri (3 km) þar sem rústir gamallar síldarverksmiðju standa.
Dagur 2: Dvalið á Hesteyri og gengið í Miðvík. (18 km) Gengin er að hluta til sama leið og daginn áður. Milli Búrfells og Kagrafells, farið meðfram Búrfelli niður í Miðvík. Gengið er til baka vestan og sunnan Litlafells og eftir Hraunkötludal til baka til Hesteyrar (um 350 m hækkun).
Í Miðvík er mýrlent og mikið um mýrarstör sem setur gjarnan gulan blæ á undirlendi víkurinnar. Þar stóðu tveir bæir, Efri- og Neðri-Miðvík. Efri Miðvík sunnan Miðvíkuróss en Neðri-Miðvík norðan óssins.
Dagur 3: Gengið um Hesteyrarbrúnir að Búðum í Hlöðuvík. (15 km) Farið er um Kússbrekku norðan Hesteyrar, meðfram Kistufelli og norður Hesteyrarbrúnir. Skoðir eru Fornmannasteinar og Valagil. Farið er um Andbrekkur upp í Kjaransvíkurskarð (420 m) um vel markaða götu en nokkuð stórgrýtta, niður í Kjaransvík norður með Álfsfelli og norður fyrir það yfir í Hlöðuvík. Farið yfir Hlöðuvíkurós og heim að Búðum.
Dagur 4: Dvalið á Búðum og gengið á Hælavíkurbjarg og víðar. (15 km) Gengið er upp Skálakamb (300 m), vel markaða götu, yfir í Hælavík. Þönglá vaðin skammt frá Hælavíkurbænum. Gengið meðfram Mástjörn og upp á Hælavíkurbjarg (200 – 300 m). Farið um nyrsta hluta bjargsins. Gengin sama leið til baka að Búðum. Nokkru vestan Þönglár er s.k. Þönglabót þar sem alltaf er fönn og skip tóku ís á sumrum áður fyrr. Mikið landbrot er við Hælavíkurbæinn.
Dagur 5: Gengið til Hafnar í Hornvík. (13 km) Gengið er um Skálakamb og Atlaskarð (um 320 m) yfir í Rekavík bak Höfn. Þar er farangur skilinn eftir og gengið undir Rekavíkurfjalli í Hvannadal. Í Hvannadal er bergangur sem gengur í sjó fram og kallast Langikambur, annar minni bergangur gengur í sjó fram svolítið sunnan við Langakamb og kallast sá Fjöl. Milli þeirra er klettabás sem kallast Kirfi og sagt að það sem þar lenti kæmi ekki aftur í leitirnar. Gengið til baka í Rekavík og síðan farið umTröllakamb yfir að Höfn í Hornvík. Í Höfn var áður verslun sem var útibú frá Ásgeirsverslun á Ísafirði. Við Höfn er tjaldað.
Dagur 6: Dvalið í Hornvík og gengið á Hornbjarg. (16 km) Gengið er fyrir botn Hornvíkur sem er sendin en talsvert melgresi vex þar. Farið yfir Kýrá, fram hjá bænum að Horni, upp og norður Hornbjarg fram á nyrstu brún (244 m). Gengið eftir bjarginu, yfir Miðfell (um 400 m) og upp á Kálfatinda (534 m), haldið er hæð eftir að kemur upp á bjargið.
Dagur 7: Siglt til baka til ísafjarðar.
Ath: Allar ár sem þarf að vaða eru auðveldar yfirferðar. Nauðsynlegt er að hafa skó til að vaða í eða laxapoka, þótt sumar árnar séu með sendinn botn sem auðvelt er að vaða berfættur.
Árbók Ferðafélags Íslands, 1994
Hornstrendingabók eftir Þórleif Bjarnason
Vestfirðir eftir Hjálmar R. Bárðarson
------------------------------------
Einar Hrafnkell Haraldsson,
ehh@ehh.is